Marel kaupir eftirstandandi 50% hlut í Curio ehf.

Fréttatilkynning

Marel hefur samþykkt að kaupa eftirstandandi 50% hlut í Curio, sem er íslenskur framleiðandi fiskvinnsluvéla. 

Farsælt samstarf 

Marel hefur nú keypt samtals 100% hlut í Curio, framleiðanda vinnslulausna fyrir hvítfisk. Frá því að Marel keypti 40% hlut í Curio í október 2019 og 10% til viðbótar í janúar 2021, hafa fyrirtækin unnið náið saman og deilt þekkingu. Fyrirtækin hafa unnið sameiginlega að vöruþróun nýrra og spennandi hátæknilausna og byggt á víðtæku sölu- og þjónustuneti og stafrænum lausnum Marel til þess að kanna nýja markaði og selja heildarlausnir um allan heim. Eftir farsælt samstarf í tvö ár hefur Marel samþykkt að kaupa eftirstandandi 50% hlut í Curio. 

Heildarlausnir í fiskvinnslu 

Þessi kaup samræmast vel markmiðum Marel að bjóða upp á heildarlausnir fyrir matvælaframleiðendur í leit að hátæknilausnum, hugbúnaði og þjónustu. Kaupin eru mikilvægt skref í metnaðarfullri vaxtarstefnu félagsins sem knúin er áfram af nýsköpun, markaðssókn og ytri vexti. Kaupin á Curio, Völku og 40% hlut í Stranda Prolog færa Marel nær því að bjóða upp á heildarlausnir fyrir fiskvinnslu á heimsvísu og hafa jákvæð áhrif á framlegð fiskiðnaðar. Valka og Curio munu halda áfram að vinna náið með Marel og munu með tíma verða samþættuð rekstri Marel. 

Um Curio 

Curio var stofnað árið 2008 og sérhæfir sig í nýstárlegum lausnum fyrir hausun, flökun og roðflettingu hvítfisks. Aðalmarkaður Curio er Evrópa, með áherslu á Norðurlönd og Bretland. Starfsmenn Curio eru um 40 talsins. 

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar Marel 

„Við erum tilbúin að taka næsta skref í okkar vegferð með Curio, eftir afar farsælt samstarf síðustu tvö ár. Við höfum nú þegar náð frábærum árangri, þar sem okkar alþjóðlega sölu- og þjónustunet hefur gert Curio kleift að selja búnað inn á nýja markaði t.d. á Spáni og á Ítalíu. Einnig hefur sameinað vöruframboð á heildarlínum, hugbúnaði og þjónustu gert okkur kleift að ná nýjum viðskiptasamningum í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Ég er sannfærð að með nýlegum sameiningum við Curio, Völku og Stranda Prolog höfum við sterkan grunn til að skapa aukið virði fyrir okkar viðskiptavini og auka vöruframboð okkar frekar fyrir sjávarútveginn. Viðskiptavinir horfa í auknum mæli til hátæknibúnaðar og stafrænna lausna sem styður við aukna skilvirkni, sjálfvirkni og sjálfbærni. Við horfum björtum augum til framtíðar og munum halda áfram að umbylta matvælavinnslu í samstarfi við viðskiptvini okkar um heim allan.

Elliði Hreinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Curio 

Samstarf Curio og Marel undanfarin tvö ár hefur gengið vonum framar og hafa bæði félögin notið góðs af samvinnunni. Í ljósi þess hve mikill vöxtur hefur verið í sameiginlegum lausnum og hve vel samstarfið hefur gengið, tel ég að nú sé rétti tíminn til að sameina félögin

Ég er spenntur fyrir komandi sameiningu, sem mun skapa ennþá sterkari og heildstæðari vörulínu, hraða nýsköpun verkefna enn meira og viðskiptavinir munu njóta góðs af sterku framleiðslu, sölu- og þjónustuneti sameinaðs félags.“

Um Curio

Curio var stofnað árið 2008 og sérhæfir sig í nýstárlegum lausnum fyrir hausun, flökun og roðflettingu hvítfisks. Aðalmarkaður Curio er Evrópa, með áherslu á Norðurlönd og Bretland. Starfsmenn Curio eru um 40 talsins.

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa um 7.000 í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Marel velti 1,2 milljörðum evra árið 2020 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á 15% hlutabréfa í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.